Björgunarmenn á eyjunni Súmötru, þar sem harður jarðskjálfti reið yfir fyrir fjórum dögum, segja líkurnar á því að finna lifandi fólk í húsarústum fara dvínandi. Björgunaraðgerðir eru nú óðum að færast til afskekktari svæða og er tjónið enn að koma í ljós.Ljóst er að heilu bæirnir eru í rúst eftir skjálftann, sem var 7,6 á Richter-kvarðanum.
Miklar skemmdir á vegum hindra björgunarteymi í því að komast leiðar sinnar til að hjálpa slösuðu fólki utan Padang, borgarinnar sem varð verst úti. Hingað til hafa um 1.000 dauðsföll verið staðfest og meira en 3.000 manna er saknað.
Jarðskjálftinn kom af stað miklum aurskriðum utan borgarinnar og hafa þær víða valdið miklu tjóni. Íbúi í einu þorpi sagði fréttaritara Reuters í gær að það væri ekki þess virði að senda björgunarsveitir þangað. ,,Allir eru dánir,” sagði hann.
Ian Bray, starfsmaður Oxfam, sagði BBC frá því að mjög erfitt væri að komast til svæða utan borgarinnar. ,,Það er vegur sem er bara 25 kílómetra langur, sem venjulega tekur 35 mínútur að keyra, hann tekur nú tíu tíma,” sagði Bray. Fréttamaður BBC sem heimsótti einangrað þorp norður af Padang sagði að stærð aurskriðna þar væri ótrúleg, allur jarðvegur hefði hreinsast úr hlíðunum og steypst ofan í dalina.
Vonin fer einnig dvínandi í borginni sjálfri. Hermaður sagði við Reuters þar í gær að á föstudag hefði oft heyrst í lifandi fólki í rústum húsanna, en að í gær hefðu hætt að heyrast nokkur hljóð.