Forsætisráðherra sýnir föt

Yukio Hatoyama, nýr forsætisráðherra Japans, hefur nokkuð annan stíl en fyrirrennarar hans og einnig þykir Miyuki, eiginkona hans, litrík. Í gær komu þau hjón fram á tískusýningu, sem haldin var í góðgerðarskyni í Tókýó og virtust kunna vel við sig á göngubrúnni.

Þau hjón komu fram á sviðið ásamt 14 ára gamalli stúlku og stilltu sér upp. Að sögn fréttamanna var forsætisráðherrafrúin í essinu sínu en forsætisráðherrann var ekki eins öruggur með sig. 

Miyuki Hatoyama hefur verið í sviðsljósi alþjóðlegra fjölmiðla eftir að hún lýsti því yfir í viðtali að hún hefði farið til Venusar um borð í fljúgandi diski. „Þetta var sérlega fallegur staður og mjög grænn,“ sagði hún.

Miyuki Hatoyama, sem er leikkona, matreiðslubókahöfundur, fatahönnuður og sjónvarpsstjarna, kveðst einnig hafa verið vinkona kvikmyndaleikarans Toms Cruise í fyrra lífi en þá hafi hann verið Japani.

Þá lýsti hún því yfir, að þau hjónin borðuðu bæði sólina í morgunverð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert