Átök í Istanbúl

Til átaka kom á milli lögreglu og mótmælenda í Istanbúl í Tyrklandi í dag. Lögreglan beitti táragasi og vatnsþrýstidælum á hóp mótmælenda sem mótmælti ársfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans, sem fram fer í tyrknesku borginni.

Flestir mótmælendanna voru stúdentar, félagsmenn í verkalýðssamtökum eða stuðningsmenn vinstrisinnaðra stjórnmálaflokka í landinu, að því er Reutersfréttastofan greinir frá. 

Þetta eru önnur fjöldamótmælin í borginni, sem er sú næst stærsta í landinu. Mörg hundruð manns hafa tekið þátt í þeim. Ungmenni hafa m.a. kastað grjóti og brotið rúður í bönkum og verslunum.

Skammt frá þeim stað þar sem mótmælin voru stóð ársfundur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans yfir. Þar eru fjármálaráðherrar, seðlabankastjórar og hagfræðingar staddir til að ræða stöðuna í efnahagsmálum heimsins.

Á sama tíma var Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, að funda með AGS og kanna möguleikann á láni til Tyrkja. Rúmt ár er liðið frá því fyrra lánasamkomulag Tyrklands við AGS rann út. Margir Tyrkir eru þessu hins vegar mótfallnir. Það hafi verið nóg að AGS hafi komið Tyrkjum til aðstoðar í efnahagskreppunni í landinu fyrir átta árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert