Hjón sem fylgdust með dóttur sinni deyja meðan þau báðu fyrir því að henni batnaði, í stað þess að hringja eftir læknisaðstoð, hafa verið fangelsuð.
Madeline Neumann, 11 ára, dó í mars 2008 liggjandi á gólfinu meðan foreldrar hennar, Dale og Leilani, stóðu umhverfis hana ásamt bænahópi sínum. Stúlkan var orðin svo veikburða að hún gat ekki lengur borðað, talað, drukkið eða gengið. Foreldrarnir, sem eru frá Wisconsin í Bandaríkjunum, voru dæmdir í 6 mánaða fangelsi en hefðu getað fengið allt að 25 ára dóm.
Stúlkan þjáðist af sykursýki en greiningin fékkst ekki fyrr en eftir andlát hennar. Auðveldlega hefði verið hægt að halda sykursýkinni í skefjum með insúlíni. Við dómsuppkvaðninguna sagði dómarinn að hjónin væru gott fólk sem voru kærulaus og tóku slæma ákvörðun. Saksóknari sagði að í kæruleysi hefðu hjónin drepið dóttur sína með því að hunsa augljós einkenni alvarlegs sjúkdóms. Hjónunum hefði borið lagaleg skylda til að fara með dóttur sína til læknis en í staðinn treystu þau á mátt bænarinnar.
Í viðtölum við lögregluna á sínum tíma kom fram að foreldrarnir töldu að máttur lækningarinnar kæmi frá guði og að þau höfðu aldrei búist við því að dóttir þeirra myndi deyja.