Skiptar skoðanir um loftslagsmál

Þjóðir heimsins takast á um útblástur gróðurhúsalofttegunda.
Þjóðir heimsins takast á um útblástur gróðurhúsalofttegunda. AP

Bandaríkjamenn hótuðu því í dag að koma í veg fyrir samkomulag um loftslagsbreytingar á fundi samningamanna í Bangkok í Tailandi. Samningamenn eru þar á fundum og ræða um hvað eigi að taka við af Kyoto-samkomulaginu. Fulltrúar Bandaríkjanna deildu hart við fulltrúa Kína á fundinum.

Sendinefnd Bandaríkjana hvatti önnur auðug lönd til að sameinast um nýjan sáttmála sem muni, ólíkt Kyoto, knýja allar þjóðir til að draga úr útblæstri, að því er segir í veffrétt The Guardian. 

Fulltrúar Evrópusambandsins (ESB) tóku afstöðu með Bandaríkjamönnunum hvað varðar að leita eftir nýju samkomulagi. Þeir sögðust hins vegar vona að því besta yrði haldið úr Kyoto-samkomulaginu.

Fulltrúar Kína og margra þróunarríkja brugðust hart við  og sögðu að ekki kæmi til greina að hrófla við Kyoto-sáttmálanum, eina sáttmálanum sem væri bindandi fyrir aðildarríkin um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. 

Nú styttist í loftslagsráðstefnuna í Kaupmannahöfn í desember næstkomandi. Löndin tvö sem losa mest, Bandaríkin og Kína, virðast ekkert ætla að gefa eftir í sinni afstöðu og því gætu þjóðir heims þurft að finna einhvern milliveg til að tryggja nýjan loftslagssáttmála, að mati The Guardian.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert