„Við erum í höndum vinstrimanna og við vitum öll hvað þeir vilja gera við landið. Við vitum að 72% fjölmiðlanna eru til vinstri. Þjóðmálaþættir og aðrir þættir í ríkissjónvarpi sem almenningur borgar fyrir eru til vinstri,“ sagði fjölmiðlakóngurinn Silvio Berlusconi eftir að friðhelgi hans var afnumin.
Berlusconi, sem er án nokkurs vafa valdamesti maður Ítalíu, brá sér á ný í gervi fórnarlambsins en hann hefur áður líkt sér við Jesú Krist.
„Þeir gera grín að okkur í gamanþáttum. Við vitum öll hvoru megin Ítalíuforseti er. Réttarhöldin yfir mér verða svo sannarlega farsi. Ég mun þurfa að gera nokkurra stunda hlé á störfum mínum í þágu ríkisins til að sýna þeim fram á að þeir séu lygarar. Mér verður heitt í hamsi út af þessu. Þeir æsa upp í Ítölum. Lengi lifi Ítalía, lengi lifi Berlusconi,“ sagði forsætisráðherrann.