Rannsóknir á fjölskyldu bandarísku forsetafrúarinnar, Michelle Obama, hafa leitt í ljós að langa-langa-langamma hennar var þræll sem tekin var frá fjölskyldu sinni aðeins 6 ára gömul.
Samkvæmt ættfræðingnum Megan Smolenyak var stúlkunni aðeins lýst í opinberum skjölum sem „negrastúlkan Melvinia“. Hún vann sem þræll á sveitabýli í Georgíu þar sem hún varð ólétt snemma á táningsárunum eftir óþekktan, hvítan mann.
Árið 1859 ól hún soninn Dolphus sem var langa-langafi Michelle Obama. Ítarlega hefur verið greint frá þessum uppgötvunum ættfræðingsins í New York Times, en sjálf segir hún þær ekki hafa komið sér á óvart. „Sú staðreynd hinsvegar, að aðeins 15 árum eftir að Dolphus lést skuli hafa fæðst afkomandi hans sem síðar yrði búsettur í Hvíta húsinu, er sláandi,“ segir Smolenyak.
Ekki er ljóst hvernig þungun langa-langa-langömmunnar Melviniu bar til, en í manntali árið 1870 kemur fram að hún hafi átt þrjú börn af blönduðum kynþætti. „Ef þú skoðar náið Afrísk-ameríska sögu þá kemur þetta ekki á óvart, margir gera sér ekki grein fyrir hversu blönduð við erum,“ segir Smolenyak.
Samkvæmt dánarvottorði Melviniu voru forleldrar hennar óþekktir. Engin viðbrögð hafa enn borist frá Hvíta húsinu vegna þessara rannsókna ættfræðingsins en Smolenyak segist vonast til þess að upplýsingar um forfeður Michelle Obama sem hún hafi sjálf hugsanlega ekki vitað af fái hljómgrunn.
Hún lýsir því sem svo að það hafi verið líkt og þrælastúlkan og sonurinn sem hún ól hafi viljað vera uppgötvuð. „Þegar þú gerir rannsóknir á fjölskyldu þá eru sumir sem kalla hærra til þín en aðrir. Í mínum huga er það ljóst að Melvinia og sonur hennar Dolphus vildu láta heyra til sín.“