Forseti Tékklands, Vaclav Klaus, vill bæta inn neðanmálsgrein í Lissabon-sáttmála Evrópusambandsins áður en hann samþykkir að skrifa undir hann. Klaus er eini þjóðarleiðtoginn sem á eftir að skrifa undir sáttmálann en hann krefst nýrra skilyrða, sem hann tilkynnti Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svía símleiðis í dag.
Svíþjóð fer þessa stundina með forsæti ESB. Að sögn Reinfeldt vill Klaus bæta inn tveimur nýjum setningum í neðanmálsgrein. „Ég sagði við hann að þetta væru röng skilaboð sem send væru á röngum tíma, að það kæmi fram mjög seint í ferlinu,“ hefur AFP eftir Reinfeldt.
Lissabon-sáttmálinn er stjórnarskrársáttmáli sem sagður er eiga að gera Evrópusambandið lýðræðislegra. Hann verður að hljóta samþykki allra 27 ríkja Evrópusambandsins til þess að taka gildi. Írar skrifuðu þann 2. október undir sáttmálann eftir að hafa áður hafnað honum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Auk þess er búist við því að forseti Póllands, Lech Kaczynski, skrifi undir á laugardag og eru Tékkar því eina fyrirstaðan sem eftir er.
Forsetinn Klaus er mikill efasemdamaður á Evrópusambandið og neitar m.a. að flagga ESB-fánanum utan við forsetabústaðinn. Verði af viðbótum nýrrar neðanmálsgreinar skv. kröfum Klaus þarf samþykki allra ESB-landanna að nýju.