Norska blaðið Aftenposten segir fréttamann bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN, Jonathan Mann, hæðast að Noregi vegna valsins á Barack Obama sem næsta friðarverðlaunahafa Nóbels. Mann kemur til Osló á hverju ári til að taka viðtal við verðlaunahafann kvöldið fyrir afhendinguna. Aftenposten hefur í kvöld eftir honum að úthlutunin í ár sé ákveðin af litlum hópi framsækinna erkitýpa frá hálfsósíalísku landi.
Mann dregur ekki dul á þá skoðun sína að nóbelsverðlaunanefndin hugsi ekki í takt við almenningsálitið, hvorki í Bandaríkjunum né annars staðar í heiminum. Í augum Bandaríkjamanna séu þetta sósíalistar frá hálfsósíalísku Skandinavíulandi sem hafi sínar eigin hugmyndir um hvernig forseta þeim líki við og hvernig forseta þeim líki ekki við.
Mann leggur áherslu á að þessi ákvörðun sé tekin af afar fáum einstaklingum. „Nefndin byggir á langri og virtri hefð, en þetta er lítill hópur, aðeins fimm manneskjur, sem leggja mat á merkustu manneskjur samtímans. Þeir funda saman í fallegri byggingu og greiða atkvæði sitt,“ segir Mann.