Fornminjum skilað til Egyptalands

Í Egyptalandi finnast einhverjar merkustu fornminjar heims en mörgum þeirra …
Í Egyptalandi finnast einhverjar merkustu fornminjar heims en mörgum þeirra hefur jafnframt verið stolið. mbl.is/Ómar Óskarsson

Frakkar tilkynntu í dag að þeir ætli sér að skila til Egyptalands fimm fornmunum sem stolið var úr Lúxor, dal konunganna og selt til Louvre safnsins.

Yfirvöld í Cairo hótuðu því fyrir tveimur dögum að slíta allri samvinnu við safnið nema mununum yrði skilað og í dag samþykktu frakkar að í raun og veru hefði verið um þjófnað að ræða árið 1980 en Louvre safnið kom höndum yfir munina árin 2000 og 2003.

Samkvæmt frönskum yfirvöldum keypti Louvre safnið munina í góðri trú og ekki hefði verið efast um heiðarleika seljandans fyrr en í nóvember þegar fornleifafræðingar uppgötvuðu að munina vantaði í grafhýsið þar sem þeir voru upprunalega.

Yfirmaður fornminja í Egyptalandi, Zahi Hawass, sagðist hinsvegar hafa trú á því að Parísarsafnið hefði keypt munina jafnvel þótt full vitneskja væri um að þeir væru stolnir. „Kaup á stolnum munum sýnir að sum söfn eru tilbúin til að ýta undir eyðileggingu og rán á egypskum fornminjum,“ hefur AFP eftir Hawass.

Egyptar hafa á nýliðnum árum sett aukinn kraft í baráttuna fyrir því að endurheimta mikilvægar fornminjar sem prýða stór söfn í öðrum löndum s.s Louvre og British Museum. Árið 2007 skiluðu Frakkar hárum af ævafornum faraó sem franskur bréfberi bauð til sölu á internetinu, en faðir hans hafði komið höndum yfir hárin við fornleifarannsókn á konunglegri múmíu 30 árum fyrr. Málið varð til þess að yfirvöld í Egyptalandi bönnuðu erlendum vísindamönnum að rannsaka konunglegar múmíur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert