Viðbrögð við þeim fréttum, að Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hljóti friðarverðlaun Nóbels í ár, hafa verið jákvæð en verðlaunin eru almennt túlkuð sem hvatning til forsetans að halda áfram baráttu sinni fyrir friði í Miðausturlöndum og fækkun kjarnorkuvopna.
„Við höfum ekki komið á friði í Miðausturlöndum.. í þetta sinn var ljóst að þeir vildu hvetja Obama til að beita sér á því sviði... Þetta er augljós hvatning til hans „að láta til sín taka í því máli og ég óska honum góðs gengis," sagði Martti Ahtisaari, fyrrverandi forseti Finnlands og friðarverðlaunahafi Nóbels í fyrra við sjónvarpsstöðina CNN.
Talsmaður Mahmouds Mhmadinejads, Íransforseta, sagði að írönsk stjórnvöld vonuðust til að verðlaunin yrðu Obama hvatning til að beita sér fyrir réttlæti í heiminum.
Hamid Karzai, forseti Afganistans, sagði að það væri vel við hæfi að Obama hljóti verðlaunin. „Starf hans og ný sýn á heiminn, vilji hans og tilraunir til að skapa vingjarnleg og góð samskipti milli ríkja gerir það að verkum að hann er verðugur verðlaunahafi," sagði talsmaður Karzai.
Talsmaður talibana, sem standa fyrir uppreisn gegn stjórnvöldum í Afganinstan, fordæmdu hins vegar verðlaunaveitinguna og sagði að Obama hefði ekki tekið eitt einasta skref í átt til friðar í Afganistan.