Barack Obama hefur tilkynnt um að hann hyggist bæta stöðu samkynhneigðra í bandaríska hernum með því að afnema hina svonefndu „don't ask, don't tell“ reglu. Samkvæmt henni eiga samkynhneigðir menn í hernum að leyna kynhneigð sinni.
Reglan hefur alla tíð verið umdeild og var George W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, gagnrýndur harðlega fyrir að beita sér ekki fyrir því að hún yrði afnumin. Hann svaraði því til að það væri hersins að taka ákvarðanir um þetta, því þar væri hagsmunamatið í réttum höndum. Yfirmenn í hernum hafa talið regluna stuðla að nauðsynlegum aga.
Áður en Obama varð forseti lofaði hann því að afnema regluna til að rétta hlut samkynhneigðra hermanna.