Niðursveiflunni sem gengið hefur yfir Bandaríkin í tæp tvö ár er nú lokið en uppganganginum sem framundan er verður hugsanlega haldið í skefjum af miklu atvinnuleysi, að mati 44 bandarískra sérfræðinga hjá Samtökum hagfræðinga (National Association of Business Economics - NABE).
„Kreppunni miklu er lokið,“ er ályktað í sameiginlegri hagspá þeirra. „Niðurstaðan er sú að mikill meirihluti hagfræðinga telur að kreppunni sé lokið en að efnahagurinn verði lengur að jafna sig en venjan er eftir svona snöggar niðursveiflur, “sagði forseti Nabe, Lynn Reaser, í dag.
Yfir 80% þeirra hagfræðinga sem gáfu álit sitt í könnun telja að þensla sé hafin að nýju í Bandaríkjunum. Könnunin leiddi líka í ljós að hin þriggja ára niðursveifla á bandarískum fasteignamarkaði, sem var upphaf efnahagsóróans, væri nú á enda runninn og búast mætti við uppsveiflu á næsta ári.
Aðaláhyggjuefnin nú eru að mati hagfræðinganna skuldir ríkissins og hátt hlutfall atvinnulausra „sem búast má við að verði áfram hátt allt næsta ár,“ segir í niðurstöðunum. Skv. spám mun atvinnuleysi í Bandaríkjunum ná 10% á fyrsta ársfjórðungi 2010 en lækka niður í 9,5% fyrir lok ársins á, en verðbólga haldist í skefjum.
„Góðu fréttirnar eru þær að hinni djúpu og löngu efnahagslægð virðist vera lokið og eftir því sem lánamarkaðir styrkjast mun bandarískur efnahagur aftur fara vaxandi á næsta ári án þess að hafa áhyggjur af aukinni verðbólgu,“ segir í ályktun NABE. Hagfræðingarnir telja hinsvegar að dollarinn muni áfram veikjast á þessu ári og haldast veikur fram á næsta ár.