Frakkar búa við mestu lífsgæðin meðal fjölmennustu þjóða Evrópu, en Bretar við þau minnstu þrátt fyrir að þeir þéni mest.
Bretar á vinnumarkaði geta gert ráð fyrir því að eyða þremur árum lengri tíma í vinnunni og deyja tveimur árum fyrr en franskir nágrannar þeirra. Þeir þurfa jafnframt að reiða meira fé af hendi en meðal Evrópubúinn fyrir eldsneyti, matvörur, áfengi og sígarettur.
Þetta kemur fram í nýrri könnun sem neytendasíðan uSwitch.com gerði en borin voru saman gögn um 17 atriði sem hafa áhrif á lífstíl fólks í löndunum Frakklandi, Spáni, Danmörku, Hollandi, Þýskalandi, Póllandi, Ítalíu, Svíþjóð, Írlandi og Bretlandi.
Niðurstöðurnar sýna að í Bretlandi eru nettó-tekjur á hvert heimili þær hæstu í löndunum, 35,730 pund eða rúmar sjö milljónir króna og þar með 10.000 pundum meiri en að meðaltali í Evrópu. Á móti kemur, að kostnaður við ýmsar nauðsynjar er meiri en annarstaðar. Blýlaust bensín er næstdýrast í Bretlandi af Evrópulöndunum, matur er einnig dýrari og aðeins Írar og Svíar greiða hærra verð fyrir áfengi.
Pólverjar vinna lengstu vinnudagana en á móti hafa þeir líka hvað lengst orlof. Bretar vinna að meðaltali 37 klukkustundir á viku en hafa stysta orlofið. Þegar kemur að hlutfallslegum framlögum af vergri landsframleiðslu til heilbrigðis- og menntamála eru Bretar líka einna neðst á listanum, þar eru lífslíkur hvað lægstar og sólarstundir einna fæstar.
Í samanburði setjast Frakkar fyrr í helgan sein, lifa lengur og eiga meira greitt orlof en íbúar landanna 10 almennt. Þeir fá lægri laun, en eyða að sama skapi hvað minnstu í mat, áfengi, rafmagn og gas.
Í könnuninni er jafnframt varað við því að lífsgæði Breta kunni að versna enn frekar vegna kreppunnar, en næstum 2,5 milljónir Breta eru nú atvinnulausar og talið líklegt að mikill niðurskurður í ríkisfjármálum sé framundan.