Hollenski öfga-hægrimaðurinn Geert Wilders vann í dag mál fyrir breskum dómstólum en hann áfrýjaði ákvörðun breskra yfirvalda um að hleypa honum ekki inn í landið.
Wilders, sem er leiðtogi hollenska Frelsisflokksins, var vísað frá Bretlandi í febrúar þegar hann kom til London til að kynna umdeilda 17 mínútna langa stuttmynd sína, Fitna, fyrir efri deild breska þingsins. Í myndinni kallar hann Kóraninn, trúarrit múslima, fasistabók og hefur Wilders verið sakaður um að kynda undir hatur á múslimum.
Jacqui Smith, þáverandi innanríkisráðherra Bretlands, tók ákvörðunina um að hleypa Wilders ekki inn í landið en gagnrýnendur töldu að með því væri verið að vanvirða lög um tjáningarfrelsi. Samkvæmt dómnum sem féll í dag verður Wilders hinsvegar hleypt inn í landið kjósi hann að heimsækja Bretland.
Í rökstuðningi fyrir ákvörðuninni á sínum tíma sagði Smith að návist hans myndi stofna í alvarlega hættu grundvallarhagsmunum samfélagsins. Fullyrðingar Wilders um múslima og trú þeirra væru ógnun við frið og þar með almenningsöryggi í Bretlandi.
Talsmaður innanríkisráðuneytisins sagði í dag að ríkisstjórnin væri vonsvikin yfir úrskurðinum. Ríkisstjórn Bretlands sé á móti öfgastefnum og ákvörðunin um að vísa Wilder burt hafi byggst á þeim grunni að nærvera hans gæti kynt undir ófriðarbál og ofbeldi milli hópa af ólíkum trúarbrögðum. Ríkisstjórnin sé enn á þessari skoðun.