Áfrýjunarréttur í Svíþjóð sneri í dag við tímamótaúrskurði sem þvingaði fjarskiptafyrirtæki til að gefa uppi auðkenni 5 netnotenda. Dómurinn í dag er sá fyrsti sem fellur samkvæmt hertum lögum um niðurhal á höfundarvörðu efni, s.k. Ipred lögum (International Property Rights Enforcement Directive).
Lögin tóku gildi í Svíþjóð þann 1. apríl síðastliðnum og veitir höfundum efnis réttinn til að krefjast þess að internetfyrirtæki afhjúpi þá notendur sem deila höfundarvörðu efni á netinu með því að gefa uppi IP tölur þeirra og greiða þannig leiðina fyrir lögsóknir.
Fimm eigendur höfundavarins efnis höfðu stefnt Ephone netþjónustunni til þess að koma höndum yfir IP tölur notanda sem dreifði á netinu 27 hljóðbókum sem hann hafði ekki réttindi til.
Í júní hafði undirréttur dæmt Ephone til að gefa uppi nafn þess sem skráður var fyrir IP tölunni sem stóð að baki dreifingunni. Í úrskurði áfrýjunarréttarins í dag segir hinsvegar að ekki þyki sannað að bækurnar hafi verið gerðar aðgengilegar almenningi af neinu ráði og var dómnum því hnekkt. Dómararnir fjórir sem fjölluðu um málið voru ekki einhuga í skoðun sinni og þurfti því aðaldómari að skerast í leikinn til að skera út um málið.
Netnotendur í Svíþjóð hafa dregið verulega úr ólöglegu niðurhali síðan Ipred lögin tóku gildi. Niðurhalið var áður svo útbreiddur vani að síðan lögin voru sett hefur almenn netnotkun í Svíþjóð minnkað um 30-40%.