Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra Noregs, lagði fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár fram í morgun. Þar kemur m.a. fram að annað árið í röð notar norska ríkið meira af tekjum af olíuvinnslu til að fjármagna ríkisútgjöld en reglum um eftirlaunasjóð Norðmanna gera ráð fyrir.
„Fjármálakreppunni er ekki lokið," sagði Halvorsen þegar hún kynnti fjárlagafrumvarpið í Stórþinginu í morgun. Hún sagði, að fyrir ári, þegar fjárlög voru lögð fram hafði bandaríski bankinn Lehman Brothers nýlega orðið gjaldþrota og fjármálakreppan var hafin. Noregur hefði hins vegar verið betur í stakk búinn en flest önnur lönd til að fást við þessa erfiðleika.
„Við eigum peninga inni á bók sem þýðir, að við getum leyst vandamálin með auðveldari hætti. En það kemur ekki í veg fyrir að við þurfum að taka erfiðar ákvarðanir," sagði Halvorsen, að sögn fréttavefjar Aftenposten.
Fram kom í morgun, að ríkisstjórnin ætlar að nota 148,4 milljarða norskra króna af olíutekjum til að fjármagna ríkisútgjöld. Er það 14,6 milljörðum meira en í fjárlögum yfirstandandi árs og 44,6 milljörðum meira en reglur um olíusjóð segja til um. Halvoren segir, að þetta sé nauðsynlegt til að örva útflutning, atvinnulíf og byggingariðnaðinn. Hún sagði einnig að þegar efnahagslífið verður komið á skrið á ný verði dregið úr notkun olíupeninganna.
Alls er gert ráð fyrir 66,6 milljarða norskra króna afgangi af rekstri ríkissjóðs sem er helmingur þess sem áætlað er í ár.
Spáð er 2% hagvexti í svonefndu fastalandshagkerfi, það er fyrir utan olíuvinnslu. Í ár er gert ráð fyrir 1,1% samdrætti.
Ríkisstjórnin ætlar m.a. að standa við allar skuldbindingar Noregs í Kyoto-sáttmálanum og auka framlög til rannsókna og tækniþróunar sem á að leiða til minni losunar koldíoxíðs.
Sérstakt átak er fyrirhugað til að koma í veg fyrir brottfall nemenda úr framhaldsskólum.