70.000 deyja eftir fóstureyðingar

Flestar hættulegar fóstureyðingar eru gerðar í Afríku, S-Ameríku og í …
Flestar hættulegar fóstureyðingar eru gerðar í Afríku, S-Ameríku og í Karabíska hafinu. Reuters

Um 70.000 konur deyja árlega og fjöldi til viðbótar líður fyrir afleiðingar hættulegra fóstureyðinga í löndum sem búa við lög sem heimila ekki fóstureyðingar. Fóstureyðingum í heiminum hefur farið fækkandi en það á einungis við löglegar fóstureyðingar og er helst að rekja til breytinga í Austur-Evrópu.  Þetta kemur fram á fréttavef The Guardian sem byggir á niðurstöðum könnunar Guttmacher-stofnunarinnar. 

Árið 2003 voru gerðar 41,6 milljónir fóstureyðinga í heiminum miðað við 45,5 milljónir árið 1995. En árið 2003 voru 19,7 milljónir þessara fóstureyðinga hættulegar og leynilegar fóstureyðingar. Fjöldi slíkra fóstureyðinga hefur varla breyst frá árinu 1995 þegar þær voru 19,9 milljónir.  

„Nær allar fóstureyðingar í Afríku, Suður-Ameríku og í Karabíska-hafinu voru hættulegar,“  segir í skýrslu Guttmacher. Í Asíu voru leyfilegar fóstureyðingar fleiri en þær leynilegu vegna fjölda leyfilegra fóstureyðinga í Kína. Flestar fóstureyðingar sem gerðar eru í Evrópu og nærri allar í Norður-Ameríku eru hættulausar.

Til snúa þróuninni við þykir nauðsynlegt að koma í veg fyrir ótímabæra þungun en í mörgum löndum er lítil fræðsla til staðar og lítið er um getnaðarvarnir. „Konur munu áfram gangast undir fóstureyðingar, hvort sem það er löglegt eða ekki, svo lengi sem getnaðarvarnir eru ónægar,“  segir Sharon Camp, yfirmaður stofnunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert