Rúmlega 1.000 dvergar sem teygja hægri handlegg sinn til himins í nasistakveðju hafa nú tekið yfir torg eitt í þýska bænum Straubing. Listamaðurinn sem skapaði þá segir dvergana vera áminning um misnotkunina sem sé inngróin í fasíska hugmyndafræði.
Dvergarnir eru 1.250 talsins og flokkað niður að hernaðarsið eftir stöðu og titlum. Flestir þeirra eru svartir en um 20 málaðir gylltir. Sýningin, sem kallast „Eitrun“ var afhjúpuð í Bæjaralandi í dag og hefur vakið blendin viðbrögð þjóðverja að sögn Deutsche Welle en listamaðurinn Ottmar Hoerl segist vera að mótmæla fasiskum tilhneigingum Þjóðverja.
“Hin fasíska hugmyndafræði að misnota fólk og stjórna fólki er stórkostlega hættuleg og er ennþá til staðar í þjóðfélaginu,” segir Hoerl sem vill vekja athygli á því að róttækri hægrimennsku hafi vaxið ásmegin um alla Evrópu, það sé ekki aðeins vandamál í Þýskalandi heldur séu nýnasistar í fleiri löndum. Gagnrýniröddum svarar hann með því að verkið sé ekki stuðningsyfirlýsing við nasisma heldur ádeila til að sýna fram á fáránleika hans.
Og hann segir sýninguna ekki aðeins eiga við um voðaverk frá róttækri hægrimennsku því sömu tilhneigingar hafi komið fram í öðrum einræðiskerfum. “Ég hefði allt eins getað notað krepptan hnefa kommúnista.”