Fjölgun lífeyrisþega stærri vandi en kreppan í ESB

Íbúar Evrópu eldast hratt
Íbúar Evrópu eldast hratt FRANCOIS LENOIR

Skuldir Evrópuríkja vegna fjármálakreppunnar verða dropi í hafið í samanburði við kostnaðinn sem fylgir þeim tugum milljóna Evrópusambandsbúa sem setjast í helgan stein á næstu áratugum. Eina lausnin, að mati sérfræðinga ESB sem munu á næstunni leggja fram tillögu til sambandsríkja og fyrir Evrópuþingið, er að Evrópubúar vinni lengur en eftirlaunaaldurinn segir til um og að ríkið bjóði aðeins upp á lágmarks öryggisnet í velferðarkerfinu.

Bretland er stærst hinna 13 ESB-landa þar sem fjöldi eftirlaunaþega fer svo ört vaxandi að það er ógn við skuldastöðu ríkisins, ekki síst þar sem ríkisstjórnir hafa eytt háum upphæðum í að koma efnahagnum aftur á ról í kreppunni.

„Þrátt fyrir að versnandi skuldastaða og hallarekstur sé áhugaverð þróun þá munu áhrifin af hækkandi lífaldri á fjárhagsstöðu ríkjanna vera margfalt meiri heldur en áhrif kreppunnar,” segir í skýrslunni.

Meðalhalli ríkissjóða í ESB var árið 2007 0,8% af vergri landsframleiðslu sem er besta staða sem náðst hefur í 30 ár. Hinsvegar er því spáð í skýrslunni að meðalhallinn í 27 löndum Evrópusambandsins verði 6% af vergri landsframleiðslu í ár og um 7% árið 2010.  

Allt í allt má búast við því að ESB muni verja um 4,75% af vergri landsframleiðslu hvers ár einungis í lífeyriskostnað árið 2060. Þegar þar að kemur verður einn af hverjum þremur sestur í helgan stein. Af öllum ESB-löndunum eru aðeins Búlgaría, Danmörk, Eistlandd, Finnland og Svíþjóð talin hafa hagað ríkisfjármálum þannig að unnt verði að takast á við þessar breytingar á komandi áratug.

Til að bregðast við þróuninni verða ríkisstjórnir hvattar til að draga úr skuldum, hækka atvinnustigið og innleiða „umbætur” á velferðarkerfum landanna. Áætlanir Breta um að hækka eftirlaunaaldurinn er því hugsanlega það sem koma skal í fleiri Evrópulöndum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert