Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, viðurkenndi í morgun að sumir embættismenn bæði í Bandaríkjunum og Rússlandi, væru fastir í hugsunarhætti kalda stríðsins. Þá hvatti hún stjórnvöld í Moskvu til að láta mannréttindamál til sín taka í auknum mæli.
Clinton, sem er í heimsókn í Moskvu, mætti á fund með nemendum í Moskvuháskóla og veitti einnig rússneskri útvarpsstöð viðtal. Hún sagði m.a. að stjórnvöld í Washington hefðu miklar áhyggjur af árásum, sem gerðar hafa verið á andófsmenn í Rússlandi og hvatti rússnesk stjórnvöld til að beita sér gegn þessu.
Þá sagði Clinton að embættismenn í bæði Rússlandi og Bandaríkjunum væru enn fastir í fortíðinni og vildu ekki að þessir fyrrum féndur tækju upp samvinnu.
„Þeir trúa því ekki, að Bandaríkin og Rússland geti átt víðtæka samvinnu. Þeir treysta ekki hvor öðrum og við verðum að sýna fram á að þeir hafi rangt fyrir sér. Það er okkar markmið," sagði Clinton við námsmennina.Hún útskýrði ekki nánar við hverja hún ætti. Um 2000 námsmenn voru viðstaddir fundinn.
Barack Obama, Bandaríkjaforseti, sagði, kvöldið áður en hann hélt í heimsókn til Rússlands í júlí í sumar, að hann teldi að Vladímír Pútín, forsætisráðherra Rússlands, „væri með annan fótinn í gamla tímanum og hinn í þeim nýja."
Clinton átti í gær fund með Dmítrí Medvedev, forseta Rússlands, en mun ekki hitta Pútín, sem almennt er talinn vera valdamesti maður þar í landi. Hann er í heimsókn í Kína. Clinton sagðist í viðtali við útvarpsstöðina Echo að hún hefði gjarnan viljað hitta Pútín.