Í sögubókunum er Benito Mussolini minnst sem eins upphafsmanna öxulveldanna í síðari heimsstyrjöld, einræðisherra sem stjórnaði þjóð sinni með harðræði og ótta og myndaði afdrifaríkt bandalag með nasistum. Skjöl sem nýlega litu dagsins ljós í Bretlandi varpa hinsvegar ljósi á nýja hlið í fortíð fasistaforingjans, því á upphafsárum hans í pólitík naut hann styrkja frá bresku leyniþjónustunni MI5.
Guardian segir frá því í dag að fyrir leyniþjónustuna hafi þetta sennilega virst hagkvæm fjárfesting á þeim tíma. Mussolini var þá 34 ára gamall blaðamaður og meira en fús til að skrifa áróður í blaðið fyrir því að ítalir ættu áfram að berjast við hlið bandamanna í stríðinu. Ekki nóg með það heldur fannst honum ekkert tiltökumál heldur að beita ýmsum aðferðum til að „sannfæra“ mótmælendur stríðsins um að halda sig heima.
Fékk sem nemur milljón króna á viku
Á móti fékk hann vikulega 100 punda styrki frá MI5. „Sá bandamaður sem Bretar gátu hvað síst reitt sig á voru Ítalir eftir að Rússar drógu sig í hlé,“ segir sagnfræðingurinn Peter Martland, sem uppgötvaði skjölin þar sem greint er frá samkomulaginu. „Mussolini fékk 100 pund á viku frá haustinu 1917 í eitt ár hið minnsta til að halda uppi áróðri fyrir stríðsrekstrinum. Þetta jafngildir um 6.000 pundum (um 1.000.000 kr.) í dag.“
Áður hafði verið minnst á tengsl Mussolini við MI5 í endurminningum Sir Samuel Hoare, þáverandi leyniþjónustumanns í Róm, en ekki var vitað nánar hvernig fyrirkomulagið var fyrr en skjölin fundust nú fyrir tilviljun.
Mussolini var ritstjóri á blaðinu Il Popolo di‘Italia en auk þess að hampa stríðsrekstrinum á síðum blaðsins launaði hann Bretum einnig greiðann með því að senda ítalska uppgjafahermenn að heimilum mótmælenda til að þagga niður í þeim með ofbeldi.
„Það síðasta sem Bretar þurftu á að halda voru mótmæli gegn stríðinu sem myndu trufla verksmiðjuframleiðsluna í Mílanó. Þetta var vissulega háar upphæðir til að greiða blaðamanni á þessum tíma, en miðað við daglegan fjáraustur í stríðinu þá skipti þetta litlu máli,“ segir Martland.
Eftir að stríðinu lauk hóf Mussolini að klifra ofar upp valdastigann með hjálp kosningasvika og ofbeldis og kom að lokum á fasísku einræði um miðjan þriðja áratuginn.