Wilders fær að fara til Bretlands

Geert Wilders
Geert Wilders Reuters

Hollenski öfga-hægrimaðurinn, Geert Wilders, ætlar að fara til Lundúna á föstudag eftir að breskur dómstóll felldi úr gildi ferðabann þingmannsins til landsins. Wilders er einna helst þekktur fyrir heimildarmynd sem hann gerði þar sem hann líkti íslam við nasisma.

Að sögn talsmanns þingmannsins mun Wilders  eiga fund með Malcolm Pearson lávarði í Lundúnum um að breyta tímasetningu á sýningu myndarinnar, sem nefnist Fitna, en ætlunin var að sýna myndina í bresku lávarðadeildinni í febrúar sl. Var það Pearson sem bauð Wilders að koma með myndina til sýningar fyrir deildina.

Wilders mun ferðast til Lundúna á föstudagsmorgun en fara heim til Hollands sama dag. Wilders, sem er leiðtogi Flokki frelsisins (PVV), var stöðvaður af innflytjendaeftirliti á Heathrow flugvelli í Lundúnum þann 12. febrúar sl. Var honum meinað að koma inn í landið og sendur heim til Hollands með næstu flugvél. Samkvæmt upplýsingum frá breska innanríkisráðuneytinu var það gert til þess að koma í veg fyrir að Wilders myndi dreifa haturs- og ofbeldisáróðri.

Hann áfrýjaði niðurstöðunni og dæmdi dómstóll honum í hag í gær. Segir Wilders niðurstöðuna vera sigur málfrelsisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert