Sex ára drengur, sem óttast var um í Coloradoríki í Bandaríkjunum þar sem talið var að hann hefði farið um borð í heimasmíðaðan loftbelg, er fundinn á lífi.
Segir lögregla að drengurinn, Falcon Heene, hafi falið sig í kassa á háalofti í bílskúr við heimili sitt. Er talið að drengurinn hafi falið sig þar eftir að hann varð þess valdandi að belgurinn fór á loft.
Loftbelgurinn, sem er heimatilbúinn, sveif yfir
Coloradoríki í Bandaríkjunum síðdegis á miklum hraða og í mikilli hæð en hann lenti skammt frá Denver.
Bandaríska þjóðin fylgst með málinu í kvöld en sjónvarpsstöð í Denver sýndi myndir beint af loftbelgnum þar sem hann sveif í allt að 2 km hæð og þess á milli féll hann hratt í átt til jarðar. Hraði belgsins mældist allt að 40 km á klukkustund.
Að sögn lögreglu í Colorado var Richard Heene, faðir drengsins, að vinna við belginn í garði við hús fjölskyldunnar. Talið var að drengurinn hefði klifrað upp í trébúr sem fest var við belginn. Af einhverjum ástæðum losnuðu festingar loftbelgsins í kjölfarið og hann sveif af stað. Búrið var hvergi sjáanlegt þegar belgurinn lenti.