Danskir hermenn urðu barni að bana og særðu tvo óbreytta borgara í Helmand héraði í Afganistan á mánudag. Voru hermennirnir að berjast við skæruliða úr hópi Talibana, samkvæmt upplýsingum frá danska hernum.
Þar kemur fram að ekki hafi verið nein vegsummerki um óbreytta borgara þegar bardaginn braust út á milli dönsku herdeildarinnar og Talibananna í nágrenni bæjarins Gereshk. Um klukkustund eftir að bardaganum lauk komu þorpsbúar að bækistöð dönsku hermannanna. Meðal þeirra var faðir ásamt tveimur dætrum sínum, Öll voru þau særð og var yngri dóttirin úrskurðuð látin í herstöðinni. Hin tvö voru flutt með þyrlu á sjúkrahús og eru ekki lengur í lífshættu.
Í tilkynningu kemur fram að rannsókn hafi leitt í ljós að þau höfðu öll verið skotin af dönsku hermönnunum.
Erik Sommer, yfirmaður í danska hernum, sagði í samtali við TV2 að herdeildin hafi öll verið miður sín vegna þessa og hún muni gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að styðja fjölskylduna.
Yfir 700 danskir hermenn eru í fjölþjóðaliði Atlantshafsbandalagsins í Afganistan. Alls hafa 25 danskir hermenn týnt lífi í landinu frá því að danskir hermenn komu þangað í lok árs 2001. Hlutfallslega hafa flestir danskir hermenn fallið í Afganistan í fjölþjóðaliði NATO í Afganistan.