Prestur ákærður fyrir að aðstoða flóttamenn

Kaupmannahöfn
Kaupmannahöfn

Sóknarprestur Brorsons kirkjunnar í Kaupmannahöfn, Per Ramsdal, verður hugsanlega ákærður fyrir að hjálpa til við að fela íraska flóttamenn. Samkvæmt lögum í Danmörku er bannað að aðstoða einstaklinga við að halda ólöglega til í landinu. Prestinum er einmitt gefið að sök að hafa veitt slíka aðstoð eftir að lögreglan handtók fjölda Íraka í kirkju hans um miðjan ágúst sl. Þetta kemur fram á vef danska dagblaðsins Politiken.

Hátt á þriðja hundrað Írökum hefur verið neitað um hæli í Danmörku og eiga yfir höfði sér að vera vísað úr landi. Fimmtíu Írakar leituðu skjóls í Brorsons kirkjunni á Norðurbrú í Kaupmannahöfn, og töldu að sér væri óhætt þar. Um miðjan ágústmánuð réðist lögreglan inn í kirkjuna og handtóku fjölda Íraka. Stór hluti þeirra var síðan sendur úr landi til Norður-Íraks. 

Ástæða þess að lögregluyfirvöld hyggjast ákæra Ramsdal má rekja til þess að eftir að lögreglan réðist inn í kirkjuna í ágúst sl. hafði blaðamaður danska dagblaðsins B.T. samband við Ramsdal og bauðst til þess að hjálpa prestinum að fela flóttamenn. Í upptöku af samtali þeirra kemur fram að presturinn gæti haft milligöngu um slíka hjálp. Upptakan er aðalsönnunargagn ákæruvaldsins. 

„Við höfum ekki fundið neinar sannanir fyrir því að hann hafi í reynd hjálpað þeim að dveljast ólöglega í landinu, en út frá upptökunni metum við það sem svo að hann hafi reynt það,“  segir Henning Schmidt, yfirmaður hjá rannsóknarlögreglunni í Danmörku. „Nú þurfa lögfræðingar að meta hvort sönnunargögnin séu nógu góð. Ef þau reynast skotheld þá ákærum við hann,“  segir Schmidt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka