Umdeildur þingmaður kominn til Bretlands

Geert Wilders (t.h.) á Heathrow-flugvelli í dag.
Geert Wilders (t.h.) á Heathrow-flugvelli í dag. AP

Hollenski þingmaðurinn Geert Wilders, sem gerði mjög umdeilda mynd um íslamstrú, kom til London í dag. Áfrýjunardómstóll hefur úrskurðað Wilders í vil, en dómstóllinn tók málið til meðferðar eftir að þingmanninum hafði verið bannað að koma til Bretlands.

Wilders var stöðvaður á Heathrow-flugvelli í London í febrúar sl. og snúið við, en bresk yfirvöld bönnuðu honum að koma til landsins. Banninu var hins vegar hnekkt í vikunni.

Að sögn flugvallaryfirvalda lenti Wilders á flugvellinum rétt fyrir kl. 11 að staðartíma og að þessu sinni var hann ekki stöðvaður.

Wilders, sem er 46 ára leiðtogi hollenska Frelsisflokksins, mun eiga fund með þingmanninum Malcolm Pearson, sem situr í Lávarðadeild breska þingsins. Pearson bauð Wilders til landsins í febrúar sl. Þá hefur verið boðað til blaðamannafundar.

Þrátt fyrir að bresk stjórnvöld hafi lýst yfir vonbrigðum með að banninu hafi verið hnekkt þá segir talsmaður innanríkisráðuneytisins að Alan Johnson, innanríkisráðherra Bretlands, muni ekkeret aðhafast vegna málsins.

Þegar Wilders var stöðvaður á flugvellinum í febrúar þá sagði innanríkisráðuneytið að þetta hefði verið gert til að koma í veg fyrir að honum tækist að dreifa boðskapi haturs og ofbeldis. Hollensk stjórnvöld gagnrýndu framferði Breta.

Þingmaðurinn hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir kvikmyndina Fitna, en þar líkir hann íslam við nasisma. Hann skeytir m.a. saman myndum af hryðjuverkaárásunum á Tvíburaturnana í New York árið 2001 saman við Kóraninn.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur sagt að myndin sé gróf móðgun við íslam.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert