Í ljós hefur komið, að bandaríski loftbelgssmiðurinn Richard Henee hringdi fyrst í sjónvarpsstöð í Colorado áður en hann hringdi í neyðarlínuna og sagðist óttast, að 6 ára sonur hans væri í stjórnlausum loftbelg. Bað Heene sjónvarpsstöðina að senda fréttaþyrlu af stað.
Bandaríska blaðið New York Times skýrir frá þessu í morgun. Segir blaðið, að Patti Dennis, fréttastjóri sjónvarpsstöðvarinnar KUSA-TV, hafi þótt þetta einkennilegt mál. Hún hringdi til baka í Heene og sagðist ekki trúa honum. Heene, sem þá var búinn að kalla lögreglu til, lét þá lögreglumann koma í símann til að staðfesta fréttina en Dennis sagðist enn hafa verið full efasemda.
Á endanum sendi hún þyrlu af stað og stöðin sýndi beint frá flugi loftbelgsins og því þegar hann lenti á flagi skammt frá Denver.
Drengurinn, Falcon Heene, reyndist síðan ekki vera í loftbelgnum heldur hafa falið sig í bílskúr fjölskyldunnar. Bandaríkjamenn eru nú afar tortryggnir í garð Heene fjölskyldunnar og grunar að um hafi verið að ræða sviðsetningu til að komast í fjölmiðla. Richard Heene hefur ítrekað neitað þessum ásökunum.
Lögregla sagði í gærkvöldi að hún teldi ekki að um hefði verið að ræða gabb en sagðist myndu ræða betur við fjölskylduna.
Fjölskyldan hefur lengi reynt að koma sér á framfæri í sjónvarpi, m.a. tekið þátt í raunveruleikaþáttum og kynnt áform um eigin sjónvarpsþætti án mikils árangurs. Richard Heene hefur sett ýmis einkennileg myndskeið á samskiptavefinn YouTube, m.a. til að sýna fram á að líf sé á Mars og að Hillary Clinton sé í raun skriðdýr.