Sameinuðu þjóðirnar telja að a.m.k. 270.000 fórnarlömb mansals sé að finna á Evrópusambandssvæðinu. SÞ hvetja stjórnvöld ríkja innan ESB til þess að grípa til markvissari aðgerða til þess að sporna gegn mansali.
Haft er eftir talsmanni SÞ á skrifstofu fíkniefna og skipulagðra glæpa (UNODR) að stjórnvöld í Evrópu þekki aðeins brot vandans þegar kemur að mansali. Hann segir a.m.k. þrjátíu sinnum fleiri manneskjur séu fórnarlömb mansals en áður hafði verið talið.
Upplýsingarnar komu fram á evrópskum baráttudegi gegn mansali sem haldinn er í dag. Markmið baráttudagsins er að draga athygli að mansalsvandanum, þ.e. smygli á fólki yfir landamæri í því skyni að notfæra sér bágar aðstæður þess m.a. með því að neyða það í vændi.
Antonio Maria Costa, yfirmaður hjá skrifstofu fíkniefna og skipulagðra glæpa hjá SÞ, benti á að fáir þeirra glæpamanna sem standi að skipulögðu mansali náist og gagnrýndi lögregluna harðlega fyrir að taka málaflokkinn ekki nægilega alvarlegan.
„Innan við einn af hverjum 100.000 eru dæmdur fyrir mansal í Evrópu, sem er mun lægri tala um hljóta dóm fyrir jafn óalgengan glæp eins og mannrán,“ sagði Costa.
„Kannski tekst lögreglunni ekki að hafa hendur í hári þeirra sem skipuleggja mansal og fórnarlömbin vegna þess að þeir eru alls ekki að leita,“ bætti hann við.
Meirihluti fórnarlamba mansals eru konur sem neyddar hafa verið í vændi. Þetta kemur fram í samantekt UNODR. Fórnarlömb mansals eru líka oft neydd til þess að vinna við byggingavinnu og á bóndabýlum. Talið er að 10% fórnarlambanna séu undir lögaldir.