Vaxmyndasafn í Taílandi hefur tekið niður auglýsingaskilti sem skartaði flennistórri mynd af Adolf Hitler þar sem hann heilsaði að nasistasið. Safnið valdi að taka skiltið niður eftir að kvartanir höfðu borist frá sendiráðum Ísraela og Þjóðverja í landinu.
Skiltið var eitt fjögurra auglýsingaskilta sem safnið hafði látið koma upp við hraðbraut í Pattaya, í því skyni að auglýsa opnun vaxmyndasafns Louis Tussauds í næsta mánuði.
Skiltinu af Hitler var komið upp fyrir um hálfum mánuði og á því var ritað slagorðið: „Hitler er ekki dáinn.“
Somporn Naksuetrong, forstjóri vaxmyndasafnsins, sagði allmargar kvartanir vegna skiltisins hafa borist. „Við völdum ekki Hitler með það fyrir augum að hylla hann, heldur vegna þess að hann er þjóðþekkt persóna,“ segir Somporn og bætir við að stjórnendur safnsins hefðu þó fullan skilning á því af hverju t.d. talsmenn þýska og ísraelska sendiráðanna væru ekki ánægðir með þetta val. „Þetta er viðkvæmt mál fyrir sumu fólki og í sumum löndum.“
Itzhak Shoham, sendiherra Ísraela í Taílandi, sagði að auglýsingaskiltið væri „ekki aðeins móðgandi gagnvart fórnarlömbum helfarinnar, heldur einnig í augum allra sem væru andsnúnir málstað rasista. Það er ofar mínum skilningi hvernig þetta gat gerst,“ er haft eftir Shoham í dagblaðinu Bankok Post.
Forsvarsmenn safnsins hafa enn ekki ákveðið hvaða þekkta persóna muni leysa Hitler af hólmi. Á hinum skiltunum þremur má finna myndir af hinum indverska Mahatma Gandhi, poppgoðinu Michael Jackson og bardagahetjunni Bruce Lee.
Þess má geta að í maí sl. var Þjóðverji á fimmtugsaldri sektaður um 900 evrur eða sem samsvarar tæplega 170 þúsundum íslenskra króna, fyrir að slíta hausinn af vaxmyndastyttu af Hitler í tiltölulega nýopnuðu útibúi vaxmyndasafns Madame Tussauds í Berlín.