Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segist binda vonir við að hægt verði að leysa þá pólitísku kreppu sem upp sé komin í Afganistan eftir að úrslit forsetakosninganna sem fram fóru í ágúst sl. voru véfengd.
„Ég er bjartsýn á að hægt verði að finna lausn á málinu á allra næstu dögum sem sé í samræmi við markmið stjórnarskrárinnar,“ segir Clinton.
Alþjóðleg nefnd á vegum SÞ, sem rannsakaði nýafstaðnar forsetakosningar í Afganistan, lýsti því fyrr í dag yfir að Hamid Karzai, forseti landsins, hefði aðeins fengið 48% gildra atkvæða. Nefndin sagði að ógilda verði atkvæði sem greidd voru á 210 kjörstöðum. Þar með aukast líkurnar á því að önnur umferð forsetakosninganna verði endurtekin, en baráttan stendur milli Hamid Karzai og Abdullah Abdullah.
Hillary Clinton segist reikna með að Hamid Karzai tjái sig á morgun um fyrirætlanir sínar. „Nefnd SÞ hefur gert niðurstöðu sína opinbera og nú bíðum við eftir viðbrögðum Karzai forseta á morgun.“
Spurð hvort hún teldi gerlegt að endurtaka kosningarnar á núverandi tímapunkti þegar veturinn væri senn að skella á svaraði Clinton því til að það væri tvímælalaust hægt. Jafnframt upplýsti hún að hún hefði þegar leitað álits á þessu hjá bandarískum embættismönnum í Afganistan.