Fimm nornum refsað á Indlandi

Þorpsbúar í indverska bænum Pattharghatia neyddu fimm konur voru til að ganga um naktar, börðu þær og þröngvuðu þær til að leggja sér mannasaur til munns. Ástæðan fyrir þessari illu meðferð kvennanna er sú að þorpsbúar telja þær vera nornir.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni í þorpinu eru konurnar fimm íslamskar ekkjur sem klerkur í þorpinu hefur stimplað sem nornir. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Þar kemur einnig fram að býsna algengt sé að farið sé illa með konur sem stimplaðar eru sem nornir. Það sem þykir hins vegar óvenjulegt er að upptökur náðust af barsmíðum kvennanna. Upptökurnar hafa valdið mikilli hneykslan á Indlandi.

Eftir að lögreglunni barst ábending frá þorpsbúum um málið fór hún í  þorpið Pattharghatia. Reikna má með að lögreglan kæri 11 þorpsbúa, þar af sex konur. Fjórir hafa verið handteknir vegna málsins.

„Síðastliðinn sunnudagsmorgun voru fórnarlömbin flutt á leikvöll þar sem hundruðir manna voru samankomin til þess að fylgjast með skelfilegum viðburði,“ segir Murari Lal Meena, yfirmaður lögreglunnar.

„Enginn í hópi áhorfenda reyndi að hjálpa fórnarlömbunum þegar þau voru afklædd og barin,“ bætir hann við. Fórnarlömbin eru nú í umsjá lögreglunnar.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni telja þorpsbúar í Pattharghatia að ákveðnar konur í þorpinu séu hugsanlega andsetnar af „heilögum anda“ sem geti greint þá sem stundi galdra.

„Þessar konur héldu því nýverið fram að konurnar fimm væru nornir sem bæru ábyrgð á því volæði sem einkennt hafi landsvæðið að undaförnu,“ er haft eftir lögreglumanni.

Hundruðir kvenna hafa verið drepnar á Indlandi eftir að nágrannar þeirra hafa sakað þær um að vera nornir. Sérfræðingar telja að í flestum tilfellum stjórnist árásirnar af hindurvitni, en í sumum tilvikum er ráðist á konurnar, sem oftast nær eru ekkjur, vegna þess að árásarmennirnir ásælast landareignir þeirra.

Frétt á vef BBC




mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert