Fyrsti fjöldamorðingi Bandaríkjanna látinn

Lögreglumenn með Howard Barton Unruh á milli sín 6. september …
Lögreglumenn með Howard Barton Unruh á milli sín 6. september árið 1949. AP

Howard Barton Unruh, sem skaut 13 til bana á götum New Jersey fyrir 60 árum, er látinn 88 ára að aldri. Unruh greindist með geðsjúkdóm og því var aldrei réttað í máli hans. Margir halda því fram að hann sé fyrsti fjöldamorðinginn í Bandaríkjunum.

Unruh, sem var vistaður á geðsjúkrahúsi í kjölfar árásinnar, lést í gær í eftir langvinn veikindi.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins að hann hefði verið búinn að ákveðna hverja hann ætlaði að skjóta, en undirbúningurinn stóð yfir í um eitt ár. Hann var 28 ára þegar hann lét til skarar skríða að morgni 6. september árið 1949. Hann játaði strax sök.

Unruh skaut fimm karlmenn, fimm konur og þrjú ung börn til bana í Camden í New Jersey. Hann var mjög góð skytta og hann var mjög rólegur þegar hann framdi ódæðið. Meðal þeirra sem hann drap voru nágrannar sem höfðu kvartað undan hávaða. Þá ætlaði hann að drapa klæðskera, en hann hafði skroppið frá til að sinna erindum. Unruh ákvað því að skjóta nýbakaða eiginkonu hans til bana.

Hann barðist í seinni heimsstyrjöldinni og var leystur frá skyldustörfum með sæmd. Morðvopnið var þýsk Luger-skammbyssa, sem Unruh eignaðist í stríðinu.

Unruh, sem stundaði nám í lyfjafræði, deildi íbúð með móður sinni á þessum tíma. Hann var einfari sem naut þess að lesa Biblíuna og hafði mikinn byssuáhuga. Við yfirheyrslur hjá lögreglunni sakaði Unruh nágrannana um samsæri gagnvart sér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert