Barack Obama, Bandaríkjaforseti, hefur ekki enn ákveðið hvort hann hyggist senda fleiri hersveiti til Afganistan áður en önnur umferð forsetakosninganna þar í landi fer fram 7. nóvember nk.
„Sameinuðu Þjóðirnir, NATO og Bandaríkin eru boðin og búin að aðstoða Afgana í því að útfæra aðra umferð kosninganna,“ er haft eftir Robert Gibbs, talsmanni Hvíta hússins. Tók hann fram að ekki lægi fyrir hvort forsetinn myndi taka ákvörðun um fjölgun í herliði Bandaríkjahers í Afganistan áður en kosningarnar færu fram.
„Það eina sem ég get sagt er að ákvörðun þess efnis verður tekin á allra næstu vikum þegar forsetinn fer yfir stöðuna,“ segir Gibbs
Ribert Gibbs hrósaði Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, karl Eikenberry, sendiherra Bandaríkjanna í Kabúl og öldungadeildarþingmanninum John Kerry sem séð hafa um að miðla málum í Afganistan á síðustu dögum og þakkaði þeim hlutdeild þeirra í því að binda enda á óvissuna í tengslum við forsetakosningarnar.
„Í mínum huga leikur enginn vafi á því að Kerry hefur haft afgerandi hlutverki að gegna í því að tryggja þá niðurstöðu sem náðst hefur í málinu,“ segir Gibbs og vísar þar til þess að stjórnvöld í Afganistan tilkynntu fyrr í dag að kosið yrði aftur milli Hamid Karzai og Abdullah Abdullah.
Obama hefur að undanförnu farið yfir hernaðaráætlun Bandaríkjahers í Afganistan í samvinnu við æðstu yfirmenn hersins. Meðal þess sem forsetinn þarf að taka afstöðu til er beiðni Stanley McChrystal, yfirmanns bandaríska herliðsins í Afganistan, um að fá a.m.k. 40 þúsund bandaríska hermenn til viðbótar til landsins.