Fjölskyldufaðir réðst á kennara

Fjölskyldufaðir réðst á grunnskólakennara í Óðinsvéum í Danmörku þegar sá síðarnefndi ætlaði að heilsa barni föðurins í foreldrasamtali. Þetta kemur fram á vef danska dagblaðsins Politiken

Þar kemur fram að fjölskyldufaðirinn, sem ættaður er frá Miðausturlöndum, hafi brugðist ókvæða við þegar karlkyns grunnskólakennari ætlaði að heilsa dóttur mannsins með handabandi. Að sögn Jesper Pedersen, varðstjóra hjá lögreglunni á Fjóni, þurfti kennarinn að leita sér aðhlynningar á sjúkrahúsi borgarinnar eftir barsmíðar föðurins. 

Kennarinn er sjálfur ættaður frá Marokkó og talar arabísku. Eftir að hafa reynt að heilsa stúlkunni, sem er í 3. bekk, rifust hann og faðirinn á arabísku áður en slagsmálin brutust út. 

Slagsmál þeirra enduðu með því að faðirinn hrækti framan í kennarann og gaf honum kjaftshögg með þeim afleiðingum að kennarinn féll í gólfið. „Því næst settist hann ofan á kennarann og lét höggin dynja á honum,“ segir Jesper Pedersen. Einnig kemur fram að kennarinn hafi verið með bitför eftir föðurinn bak við eyrað. 

Annar kennari var viðstaddur þegar þessu fór fram og þegar hér var komið sögu hljóp hann eftir aðstoð. Kennaranum, sem lá á gólfinu, tókst að halda fast í árásarmann sinn þar til lögreglan kom á staðinn og handtók hann. 

Allan E. Feldskou, skólastjóri skólans, harmar atvikið og sagðist ekki skilja viðbrögð föðurins. „Mér líður illa út af þessu. Það er mjög alvarlegt ef starfsfólk skólans getur ekki unnið vinnuna sína,“ segir hann og tekur fram að það sé mjög eðlilegt að starfsmenn skólans heilsi nemendum skólans með handabandi í foreldraviðtölum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert