Barack Obama, Bandaríkjaforseti, og Hu Jintao, forseti Kína, ræddust við í síma fyrr í kvöld og sammæltust um að vinna saman að því að tryggja árangursríka niðurstöðu á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftlagsmál í Kaupmannahöfn í desember nk. Þetta er haft eftir talsmanni Hvíta hússins.
Símtal leiðtoganna tveggja kemur í kjölfar viðvarana þess efnis ekki séu nægilega háleit markmið uppi á borðum í tengslum við skipulagða loftlagsráðstefnu um áætlun sem leyst geti Kýótó-bókunina af hólmi.
Í yfirlýsingu frá Hvíta húsinu kom fram að forsetarnir tveir hefðu ræðst við í síma að kvöldi sl. þriðjudags.
„Þeir skiptust á skoðunum um tvíhliða málefni og loftlagsbreytingum. Báðir leiðtogarnir staðfestu að hvor um sig væri að grípa til áþreifanlegra aðgerða til þess að takast á við loftlagsbreytingarnar og draga úr losun.
Obama forseti lagði áherslu á mikilvægi þess að vinna að árangursríkri lausn á ráðstefnunni í Kaupmannahöfn í desember og mikilvægi þess að Bandaríkin og Kína tæki forystu í því samhengi,“ segir í tilkynningu Hvíta hússins. Þar kemur einnig fram að forsetarnir hafi samþykkt að láta starfslið sitt leggja meira á sig til þess að stuðla að árangursríkri lausn í Kaupmannahöfn.
Áður en Hvíta húsið sendi tilkynninguna frá sér hafði í Xinhua, ríkisfréttastofu Kína, birt frétt þess efnis að Hu hefði í símtalinu við Obama sérstaklega rætt um dvínandi vonir manna um árangursríka lausn í Kaupmannahöfn.
„Þrátt fyrir samningsaðilar hafi þungar áhyggjur af þeim vandamálum sem verður að leysa, þá er enn von til þess að árangur geti náðst á fundinum í Kaupmannahöfn ef allir samningsaðilar rétta út sáttarhöfn og leggja sig fram til hins ýtrasta,“ segir m.a. í tilkynningu Hvíta hússins.
Bandaríkin og Kína eru þau tvö lönd í heiminum sem losa mest af gróðurhúsalofttegundum. Sökum þessa líta margir svo á að löndin tvö séu lykilaðilar í því að ná árangursríkri lausn á heimsvísu.