Madoff stýrði svallveislum

Bernard Madoff.
Bernard Madoff. Reuters

Fullyrt er í málsskjölum, sem fylgja málshöfðun á hendur kaupsýslumannsins Bernards Madoff, að hann hafi stýrt skrifstofu þar sem fíkniefna var oft neytt og gjarnan haldin samkvæmi á síðkvöldum þar sem fáklæddar dansmeyjar komu fram.

Í skjölunum segir, að tilteknir útsendarar Madoffs, sem öfluðu honum viðskiptavina, hafi fengið að taka þátt í samkvæmunum.  

Lögmaðurinn Joseph Cotchett leggur kæruna fram fyrir hönd fórnarlambs Madoffs, sem fyrr á þessu ári var dæmdur í 150 ári í mesta fjársvikamáli sem um getur í Bandaríkjunum.

Lögmaðurinn krefst bóta frá fyrirtækjum og einstaklingum, tengdum Madoff, á þeirri forsendu að þau hefðu átt að sjá í gegnum svikamylluna sem hann stýrði. Þar ámeðal eru bankarnir JPMorgan Chase og Bank of New York Mellon, sem sáu um nokkra af reikningum Madoffs, og endurskoðunarfyrirtækið KPMG.

Kærandinn er Jay Wexler, sem býr í New York og er sagður hafa tapað hundruð þúsunda dala á svikum Madoffs.  

Í málsskjölunum segir, að í samkvæmum í höfuðstöðvum fyrirtækis Madoffs hafi topplausar stúlkur gengið um beina og starfsmenn hafi haft fíkniefni um hönd.  Hafi stór hluti þeirra fjármuna, sem stolið var af viðskiptavinunum, farið í að fjármagna óhófslifnað Madoff, fjölskyldu, starfsmanna og annarra sem tengdust fyrirtækinu.

Þá er fullyrt, að Madoff sjálfur hafi verið með lista yfir símanúmer uppáhalds nuddkvennanna sinna. Einnig er fullyrt að skrifstofur Madoffs hafi verið kölluð Norðurpóllinn vegna þess að kókaín flæddi þar um allt. Sagt er að Madoff hafi þegar árið 1975 ráðið tvo menn til að tryggja, að aldrei yrði skortur á kókaíni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert