Gífurlegur fjöldi nauðgana í Kongó

Flóttamenn í austurhluta lýðveldisins Kongó.
Flóttamenn í austurhluta lýðveldisins Kongó. AP

Gífurlega mikið er um nauðganir í lýðveldinu Kongó og segja Sameinuðu þjóðirnar að nauðganir séu daglegt brauð þar sem þeim sé beitt sem vopni.

Segir SÞ að tilkynnt hafi verið um 5400 nauðganir í Suður Kivu héraði fyrstu sex mánuði ársins.

Elisabeth Byrs, talsmaður SÞ, segir að æ hættulegra sé að vera á ferð í Suður Kivu sem liggur nálægt landamærunum að Rúanda. Eigi þetta sérstaklega við um konur.

,,Árásir vopnaðra sveita að næturlagi á borgara og nauðganir eru enn viðfemt vandamál," segir Byrs.

Um 90% nauðgana eru talin vera framin af vopnuðum sveitum eða hernum.

Nabwemba Natabaro, kona í Suður Kivu, sagði blaðamanni Al Jazeera að henni hefði verið haldið á víðavangi í tvo mánuði þar sem henni hefði verið nauðgað aftur og aftur af hópi manna. Henni hafði verið rænt frá þorpi sínu.

,,Fjölskyldan mín hélt að ég hefði verið drepin og var búin að missa alla von um að sjá mig nokkurn tímann aftur. Síðan tókst mér að flýja en ég var orðin mjög veik" sagði hún.

Fjölskyldan fór með hana á spítala þar sem hún greindist með alnæmi.

Margar kvennanna sæta einnig öðrum pyntingum af hálfu misyndismannanna. Algengt er að þær þurfi að gangast undir viðamiklar skurðaðgerðir eftir atburðinn og er fjöldi kvennanna slíkur að margar þurfa að bíða mánuðum saman eftir að komast í aðgerð.

Talið er líklegt að ekki sé tilkynnt um nema lítinn hluta nauðgana í landinu en ekkert land hefur samt sem áður jafn háa tíðni nauðgana og lýðveldið Kongó.

Í mörgum tilvikum eru fórnarlömb nauðgananna útilokaðar í samfélaginu af eiginmönnum, eiginkonum og öðrum.

Bardagarnir í austurhluta landsins eru milli stjórnarhersins sem studdur er af SÞ og uppreisnarmanna Hútúa frá Rwanda. Hafa átökin harðnað undanfarna mánuði.

Í fáum löndum eru fleiri hermenn frá SÞ en í Kongó. Hundruðir þúsunda hafa flúið átökin í austurhluta landsins og þurfa marga flóttamannanna verndar við.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert