Hýddar fyrir að klæðast buxum

Súdanskur dómstóll hefur dæmt tvær konur til að þola tuttugu svipuhögg fyrir óæskilegan klæðnað. Konurnar klæddust buxum og ekki höfuðklút. Konurnar hafa ekki verið nafngreindar. Þær voru handteknar í júlí síðastliðnum ásamt blaðakonunni Lubna Ahmed Hussein, en hún var sjálf dæmd í síðasta mánuði fyrir sömu sakir.

Auk þess að þola tuttugu svipuhögg þurfa konurnar að greiða 250 súdönsk pund, eða um 12 þúsund krónur, í sekt. Verði hún ekki greidd gætu konurnar þurft að sitja í fangelsi í einn mánuð. Dómurinn er í samræm við súdönsk lög sem taka mið af lögum Íslam.

Hussein var dæmd í síðasta mánuði til að greiða 500 súdönsk pund fyrir að klæðast buxum en ekki til hýðingar. Hún neitaði að greiða sektina og var því fangelsuð. Eftir einn dag í fangelsinu greiddi blaðamannafélag í Súdan sektina og var hún þá látin laus.

Konurnar þrjár sátu á veitingastað í borginni Khartoum þegar þær voru handteknar. Tólf konur til viðbótar voru einnig handteknar og dæmdar fyrir sömu sakir. Tíu þeirra hafa þegar verið hýddar fyrir brot sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka