Mótmælendum og lögreglu laust saman nú fyrir stundu fyrir utan sjónvarpsstöð BBC í Vestur-London en þar stendur til að taka upp viðtal við leiðtoga öfgahægriflokksins, Breska þjóðarflokksins, BNP.
Leiðtogi BNP, Nick Griffin, verður gestur í einum helsta pólitíska umræðuþætti BBC, Question Time, í kvöld.
Framkvæmdastjóri BBC, Mark Thompson, hefur varið þá ákvörðun að bjóða Griffin í þáttinn og segir að það sé ekki undir stjórn BBC komið að ritskoða eða hindra breska stjórnmálaflokka.
Ákvörðun BBC hefur valdið miklum deilum og umróti í bresku samfélagi og segja ýmis samtök að verði honum leyft að tjá sig í sjónvarpi geti valdið því að hægri sveifla aukist í samfélaginu og að fólk gangi unnvörpum í flokkinn, líkt og hafi gerst annars staðar, til dæmis í Frakklandi þar sem flokkur Jean-Marie Le Pen, Front National, hefur átt miklu fylgi að fagna.
BNP hefur kallað eftir því að innflytjendur verði hindraðir í því að flytja til Bretlands, að þeir verði fluttir burtu frá landinu og að Bretland dragi sig út úr ESB.
Flokkurinn meinar einnig þeim sem ekki eru hvítir að ganga í flokkinn.
BNP vann tvö sæti í Evrópuþinginu í kosningunum í júní og á sama tíma í nokkur bæjarráð í Bretlandi. Þeir hafa ekki enn komið inn manni hins vegar á breska þingið.