Samkynhneigðir mega giftast í kirkju

Mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Lúterska kirkjan í Svíþjóð ákvað í dag að leyfa samkynhneigðum að giftast á samkomustöðum sínum, fimm mánuðum eftir að giftingarnar urðu löglegar í Svíþjóð.

Nærri 70% af þeim 250 sem sitja í kirkjuráði sænsku kirkjunnar greiddi atkvæði með því að leyfa samkynhneigðum að giftast í kirkjum og öðrum samkomustöðum sænsku kirkjunnar frá og með 1. nóvember og hefur aðlagað brúðkaupseiðana að samkynhneigðum.

Sænska kirkjan sem var þjóðkirkja allt til ársins 2000 hefur stutt lög sem samþykkt voru í vor og tóku gildi 1. maí. Hún ákvað hins vegar að bíða með að leyfa kirkjubrúðkaup þar til það væri samþykkt á fundinum nú í vikunni.

Svíþjóð hefur gegnt forystuhlutverki í málefnum samkynhneigðra, til dæmis með tilliti til ættleiðingar samkynhneigðra. Það er nú meðal fárra ríkja í heiminum sem leyfa samkynhneigðum að gifast í kirkjun landsins.

Þrír af hverjum fjórum Svíum eru í lútersku kirkjunni.

Réttindasamtök samkynhneigðra í Svíþjóð hafa lýst yfir ánægju með ákvörðunina en einnig vonbrigðum með þann rétt presta til að neita samkynhneigðum um giftingu. Í slíkum tilvikum ætti kirkjan að finna annan prest til þess að gegna þjónustunni.

Kaþólska kirkjan í Svíþjóð hefur lýst yfir vonbrigðum með ákvörðun lútersku kirkjunnar. Gifting samkynhneigðra stríði gegn hefðum kirkjunnar og þeirri sýn sem hún hefur á sköpunina.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert