Laganna verðir frá Guatemala og Bandaríkjunum tóku áhöfn kafbáts höndum undan ströndum Guatemala en í kafbátnum fundust 10 tonn af kókaíni um borð. Efninu var verið að smygla til Bandaríkjanna.
Fimm menn voru í áhöfn kafbátsins, einn Mexíkói og fjórir Kólumbíumenn. Talið er að verðmæti farmsins, miðað við gangverð á kókaíni til bandarískra fíkniefnaneytenda, hafi verið um 200 milljónir dollara.
Kafbáturinn var tekinn um 280 km undan ströndum Guatemala, sem orðin er mikilvæg dreifingarmiðstöð mexíkóskra fíkniefnagengja. Þangað hafa gengin hrakist vegna aukinnar sóknar gegn þeim í Mexíkó eftir kjör Felipe Calderon sem forseta í desember 2006.
Varðskip sem fylgjast með flutningi fíkniefna á sjó við Mið-Ameríku hafa tekið að minnsta kosti tvo fíkniefnakafbátar til viðbótar undanfarið. Um er að ræða farkost sem smíðaður er úr trefjagleir og stáli og erfitt er að sjá í ratsjám.Bátarnir eru sagðir kosta allt að milljón dollara en yfirleitt sökkt eftir notkun.