Franska stjórnin mun á allra næstu dögum leggja fyrir þing landsins frumvarp til laga sem m.a. felur í sér heimildir til að beita lyfjum til að gelda afbrotamenn.
Frá þessu skýrir Michele Alliot-Marie dómsmálaráðherra í viðtali við fylgirit dagblaðsins Le Figaro, Figaro Magazine, sem út kemur á morgun, laugardag.
Megin tilgangur laganna er að stuðla að því að kynferðisbrotamenn endurtaki ekki athæfi sitt seinna meir. Þannig verði dæmdum brotamönnum bannað með lögum að búa nálægt heimilum fórnarlamba sinna í ákveðinn tíma, sem dómari ákveður.
Nái frumvarpið fram að ganga verður þeim gert að bera öllum stundum armband er gefur staðsetningu þeirra sjálfkrafa til kynna. Þannig verður hægt að fylgjast með ferðum þeirra nótt sem dag meðan þörf verður talin á.
Alliot-Marie segir að tilgangurinn með lyfjameðferð sé fyrst og fremst að drepa kynlöngun manna sem gerst hafa sekir um kynferðisbrot. Óheimilt hefur verið að beita slíkum aðferðum en athygli vakti í haust, að dæmdum barnaníðingi var synjað um meðferð af því tagi, sem hann fór sjálfur fram á.
Alliot-Marie boðar, að með engu móti verði hægt að veita kynferðisbrotamönnum reynslulausn nema því aðeins að þeir gangist undir lyfjageldingu. Samþykki þeir ekki slíka meðferð þurfi þeir að dúsa í fangelsi refsivistina alla.
Kynferðisbrotamönnum verður í sjálfsvald sett hvort þeir sæti meðferð að aflokinni afplánun. Verður það í höndum sérstakra lækna að ákveða lengd meðferðar.