Rannsókn er hafin á því hvers vegna farþegaþota bandaríska flugfélagsins Northwest Airlines á leið frá San Diego til Minneapolis flaug 240 km framhjá áfangastaðnum.
Sambandslaust var við þotuna í klukkustund þar sem hún var á ferð í 37.000 feta flughæð. Flugmennirnir gáfu rannsakendum atviksins þá skýringu, að þeir hefðu átt í rifrildi um starf og stefnu flugfélagsins og „afvegavillst“ við það.
Meðal annars hafa farið fregnir af því að flugmennirnir hafi sofnað undir stýri en talsmenn bandaríska samgönguöryggisstofnunarinnar (NTSB) segja það ágiskanir.
Um síðir náðist samband við flugmennina en þá hafði hún flogið yfir Minneapolis-St Paul og haldið áfram í 16 mínútur til viðbótar.
Um borð í þotunni voru 147 farþegar en flugvélin lenti um síðar í Minneapolis eins og ekkert hefði í skorist. Við lendingu var hald lagt á ferð- og flugrita flugvélarinnar til rannsóknar.
Er flugvélin hélt ferðinni áfram framhjá flugvellinum sendi bandaríska flugmálastjórnin tvær orrustuþotur á loft þar sem óttast var að þotunni hafi verið rænt eða við annan vanda væri að glíma og þess vegna svöruðu flugmennirnir ekki í talstöðinni.
Flugmennirnir hafa verið leystir undan starfsskyldum sínum.