Nýr utanríkisráðherra reynslulítill

Guido Westerwelle og Angela Merkel á blaðamannafundi í Berlín í …
Guido Westerwelle og Angela Merkel á blaðamannafundi í Berlín í dag þar sem stjórnin var kynnt. FABRIZIO BENSCH

Hinn nýi utanríkisráðherra Þýskalands, Guido Westerwelle, sem einnig gegnir stöðu varakanslara nýrri stjórn Angelu Merkel, hefur hvorki ráðherrareynslu eða reynslu af utanríkismálum. Westerwelle sem er samkynhneigður segir það ekki muni hafa nein áhrif á störf sín. 

Merkel, kanslari Þýskalands, kynnti í dag nýja ríkisstjórn Kristilega demókrataflokksins og Frjálsra demókrata, sem lokið var við að mynda í gær. Það vekur athygli að Wolfgang Schäuble verður fjármálaráðherra en hann var náinn samstarfsmaður Helmuts Kohls, fyrrum kanslara Þýskalands.

Schäuble, sem er 67 ára, hefur verið bundinn við hjólastól frá árinu 1990 þegar andlega sjúkur maður skaut á hann. Hann hefur verið innanríkisráðherra í ríkisstjórn Merkels undanfarin fjögur ár.

Westerwelle, sem er 47 ára lögmaður, er leiðtogi Frjálsa demókrataflokksins, FDP, og hefur nú fengið tvö embætti sem hefð er fyrir að gangi til háttsetts manns í minnihluta ríkisstjórnar. Flokkur hans, FDP, fékk tæp fimmtán prósent atkvæða í nýliðnum kosningum og hefur ekki áður náð svo góðu fylgi.

Westerwelle gefur lítið fyrir áhyggjur sem komið hafa fram í fjölmiðlum um hvort samkynhneigð hans geti skapað vandamál í hlutverki hans sem utanríkisráðherra.

,,Sum lönd geta sett það fyrir sig að Angela Merkel er fyrsti kvenkanslari Þýskalands. Hún er samt aldrei með andlitshulu þegar hún gengur á rauða dreglinum í sumum Arabalöndum," sagði hann. ,,Það hvern við sendum sem fulltrúa ríkisstjórnarinnar er einvörðungu ákveðið af okkur Þjóðverjum, byggt á pólitískum og siðferðislegum gildum sem við höfum í heiðri."

Westerwelle kom út úr skápnum í fimmtugsafmæli Merkel árið 2004, ásamt félaga sínum, viðskiptamanninum Michael Mronz.

Í utanríkismálum segist hann ætla að viðhalda grundvallarstefnu sem mótast hafi í Þýskalandi eftir seinna stríð. Hann hefur hins vegar lýst þeirri skoðun, að Bandaríkjamenn eigi að flytja kjarnorkuvopn sín frá herstöðvum í Þýskalandi.

Í fjölmiðlum hafa einnig verið nefndar áhyggjur af enskukunnáttu Westerwelle og voru þær undirstrikaðar þegar hann neitaði að svara á ensku eftir að hafa fengið spurningu frá fréttamanni frá BBC.

Westerwelle hefur verið að bisa við að hrista af sér léttúðuga ímynd sem hann fékk á sig eftir að hafa flutt inn í Big brother hús í samnefndum sjónvarpsþætti og málað prósentutakmark flokks síns á skósóla sína árið 2005.

,,Ég gerði nokkur mistök þegar ég var ungur en maður er alltaf að verða eldri og vitrari," sagði hann í viðtali við AFP fréttastofuna frönsku, aðspurður um málið. Hann er nú 47 ára. Hann segist þó trúa á að Þjóðverjar kunni að meta stjórnmálamann sem taki sjálfan sig ekki of hátíðlega. ,,Kannski eru Þjóðverjar ekki eins stífir og útlendingar halda stundum."



 

Wolfgang Schäuble.
Wolfgang Schäuble. AP
Guido Westerwelle, nýr utanríkisráðherra Þýskalands.
Guido Westerwelle, nýr utanríkisráðherra Þýskalands. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert