Húðstrýkt vegna sjónvarpsþáttar

Mazen Abdul Jawad
Mazen Abdul Jawad

Kona í Sádí Arabíu hefur verið dæmd til þess að þola sextíu vandarhögg fyrir að starfa á sjónvarpsstöð sem sýndi viðtal við karlmann sem gortaði sig af kynlífi. Þátturinn, sem var sendur út af líbanskri sjónvarpsstöð LBC, vakti mikla reiði meðal íbúa í Sádi Arabíu en ríkið er eitt það íhaldsamasta í Arabaheiminum.

Konan er önnur tveggja kvenna sem unnu hjá sjónvarpsstöðinni í Sádí Arabíu sem hafa verið handteknar og eins er búið að loka útibúinu þar í landi.

Karlmaðurinn, Mazen Abdul Jawad, sem stærði sig af kynlífsreynslu sinni var nýverið dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir ósiðsamlega hegðun  í heimalandinu, Sádí Arabiu. Brjóti fólk þar ströng íslömsk lög, t.d. með drykkju eða kynlífi fyrir hjónaband, er refsingin húðstrýking eða fangelsisvist. Auk fangelsisvistarinnar var hann dæmdur til að þola 1.000 vandarhögg.

Mazen Abdul Jawad talaði um kynferðislega landvinninga sína og sagði  m.a. að þeir hefðu hafist með nágrannastúlku þegar hann var 14 ára gamall.  Þrír félagar hans sem einnig komu fram í þættinum voru dæmdir í tveggja ára fangelsi.

Í þættinum, sem var tekinn upp í piparsveinaíbúð mannsins í Mekka, talaði hann fjálglega um hvernig hann næði sér í konur og sýndi ýmiskonar kynlífsleikföng sem hann átti. Mikil reiði greip um sig eftir að þátturinn var sýndur og þá ekki síst eftir að hægt var að nálgast hann á YouTube. 

Eftir að þátturinn var sýndur baðst Jawad afsökunar og sagði að starfsmenn stöðvarinnar hafi tælt sig til þess að koma fram í þættinum.

Fréttavefur BBC bendir á að einn aðaleigandi sjónvarpsstöðvarinnar, LBC , er prins Alwaleed bin Talal, sem er einn ríkasti maður Sádí Arabíu og eigandi fjölmargra fjölmiðla.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert