Yfirmaður lögreglunnar í Dallas bað í dag 39 manns afsökunar sem höfðu fengið umferðarsekt af því að þau töluðu ekki ensku. Sektirnar voru gefnar út á liðnum þremur árum af sex lögreglumönnum. „Ég bið spænskumælandi borgara afsökunar,“ sagði lögregluforinginn.
„Ég var hissa og agndofa yfir að svona nokkuð gæti gerst hér í Dallas-borg þar sem hér er mjög, mjög fjölbreytilegt samfélag,“ sagði David Kunkle lögregluforingi. Atvikið kom í ljós eftir að kona fór fyrir rétt til að fá fellda niður sekt sem hafði verið gefin út af ungum lögreglumanni þar sem stóð að hún hefði verið sektuð fyrir að „vera ökumaður sem ekki kynni ensku.“
Kunkle sagði að þessi misskilningur á ríkislögum væri líklega að rekja til þess að reynt hafi verið að innleiða rafrænt sektunarkerfi. Listum með skírskotunum til laga hefði verið dreift og meðal þeirra væru lagaboð sem skylduðu ökumenn sendibíla til að búa yfir nægilegri enskukunnáttu til að aka bílunum af öryggi.
Kunkle sagði lögregluna ekki hafa í hyggju að kanna enskukunnáttu borgaranna.