Karadzic fyrir rétt á morgun

Fjöldagröf í Srebrenica.
Fjöldagröf í Srebrenica.

Réttarhöldin yfir Radovan Karadzic, fyrrverandi leiðtoga Bosníu-Serba, hefjast fyrir stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna í Haag í Hollandi á morgun. Hefur Karadzic hótað að sniðganga réttarhöldinn.

Karadzic var handtekinn skammt frá Belgrad, höfuðborg Serbíu, 21. júlí í fyrra eftir að hafa verið á flótta í tólf ár.

Karadzic er gefið að sök að hafa framið þjóðarmorð, stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyni og fleiri voðaverk. Þar á meðal er umsátrið um Sarajevo, sem stóð í 43 mánuði. Á þeim tíma rigndi sprengjum yfir borgina og talið er að um 12 þúsund óbreyttir borgarar hafi látið lífið. Hann er einnig sakaður um að hafa lagt á ráðin um fjöldamorðin í Srebrenica árið 1995.

Dómstólinn í Haag hefur þegar sakfellt sex af þeim nítján sem taldir eru bera ábyrgð á fjöldamorðunum í Srebrenica. Enn hefur ekki tekist að handsama yfirmann hers Bosníu-Serba, Ratko Mladic.

Srebrenica var undir yfirráðum SÞ sem vernduðu múslima í borginni þar til 11. júlí 1995 er hersveitir Bosníu-Serba náðu yfirráðum í borginni. Herdeildirnar söfnuðu saman öllum múslimskum karlmönnum og drengjum saman og tóku af lífi. Síðan var líkum þeirra hent í fjöldagrafir sem enn eru að finnast. Er þetta skelfilegustu fjöldamorð í Evrópu frá tímum seinni heimstyrjaldarinnar.

Karadzic
Karadzic Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert