Fórnarlambið í sakamálinu gegn Roman Polanski, hefur kallað eftir því að ákærur gegn leikstjóranum verði látnar niður falla. Fjölmiðlar láti fórnarlambið ekki í friði og það sé að koma niður á heilsu hennar.
Lögfræðingar Samantha Geimer, sem var þrettán ára þegar Polanski nauðgaði henni árið 1977 hefur kallað eftir því að ákærurnar falli niður.
Í dómsskjölum segir að Geimer, sem býr núna á Hawaii ásamt manni sínum og börnum, hafi orðið fyrir heilsufarslegum skaða eftir að hafa verið hundelt af fjölmiðlum allt frá því að Polanski var handtekinn í Sviss í síðasta mánuði.
,,Samantha og lögfræðingur hennar hafa fengið tæplega fimm hundruð símtöl frá fjölmiðlum víða um heim sem hafa viljað fá viðbrögð frá henni." stendur í skjölunum.
,,Larry King er búinn að hringja, Oprah er búin að hringja, allar stóru stöðvarnar eru búnar að hringja. Þrír blaðamenn frá LA Times hringja í sífellu og það sama gildir um flest stærstu dagblöðin í Bandaríkjunum og erlendis."
Svörin við símtölum eru á einn veg: ,,Látið mig í friði." en á það er ekki hlusta, segir enn fremur.
Þá segir einnig í beiðninni að móðir Geimers, eiginmaður og börn hafi öll orðið fyrir barðinu á blaðamönnum og þetta hafi áhrif á heilsu hennar og starf.
,,Símtöl á öllum tímum sólarhrings trufla heimilisfriðinn, gemsinn hringir linnulaust og sömuleiðis síminn á vinnustaðnum. Fórnarlambið ef aftur orðið að fórnarlambi. Þessi eltingaleikur hefur orsakað heilsufarsleg vandamál og komið niður á frammistöðu hennar í vinnunni. Þessi eltingaleikur gæti raunverulega ollið því að hún gæti misst vinnuna."
Polanski var handtekinn þann 26. september í Sviss. Bandarísk yfirvöld hafa nú lagt fram framsalskröfu sem eftir á að taka afstöðu til. Polanski sem setið hefur í fangelsi frá því að hann var fangelsaður bað um að fá að ganga laus gegn tryggingu en því var hafnað. Því var áfrýjað til hæstaréttar sem komst að sömu niðurstöðu þann 19.október og sagði í dómsorðum að það væri mikil hætta á að Polanski myndi flýja land til að komast hjá framsali.
Hlekkur á Polanski á Wikipedia þar sem m.a er farið í saumana á málinu.