Flugmennirnir voru hugfangnir af tölvum

Starfsmenn bandarískra flugmálayfirvalda segja, að í ljós hafi komið að flugmenn flugs 188 hjá Northwest flugfélaginu hafi tekið upp fartölvur sínar meðan á fluginu stóð. Þá gleymdu þeir sér í samræðum um vinnuna og fleiri hluti og tóku ekki eftir því að flugvélin fór framhjá Minneapolis en þangað var ferðinni heitið.

Bandaríska flugöryggismálanefndin segir, að flugmennirnir tveir, sem eru báðir reynslumiklir, hafi gleymt sér í samræðum og ekki tekið eftir boðum, sem bárust frá flugumferðarstjórnum sem reyndu að ná sambandi við þá.

Hvorugur flugmannanna gerði sér grein fyrir því hvar flugvélin var fyrr en flugfreyja kallaði til þeirra fimm mínútum áður en flugvélin átti að lenda og spurði hvenær áætlaður lendingartími væri. Þá fyrst leit flugstjórinn á skjá á mælaborðinu og sá að flugvélin var komin framhjá Minneapolis.  

Flugmennirnir sögðu rannsakendum í gær, að þeir hefðu farið á salernið, rætt við flugfreyjur og tekið upp fartölvur sínar í flugstjórnarklefanum og rætt saman um vaktaáætlanir. Allt þetta varð til þess, að ekkert samband náðist við flugvélina í um klukkustund.  

Ásakanir komu fram um að flugmennirnir hefðu sofnað en engar vísbendingar eru um slíkt. Flugvélin var á sjálfstýringu og flaug um 160 km lengra en áætlað var áður en henni var snúið við.  

Flugvélin var á leið frá San Diego í Kalíforníu til Minneapolis með 147 farþega. Flugmönnunum var vikið frá störfum á meðan rannsókn stendur yfir á atvikinu. Að sögn flugfélagsins samrýmist það ekki reglum þess að flugmenn noti fartölvur meðan á flugi stendur.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert